Aflýsa þurfti tónleikum bandarísku þungarokksveitarinnar Metallica í Globen í Stokkhólmi í gærkvöldi vegna þess að James Hetfield, söngvari sveitarinnar, veiktist skyndilega og var fluttur á sjúkrahús.
Húsið var fullt þegar tónleikarnir áttu að hefjast en þá steig Lars Ulrich, danskur trommari Metallica, fram á sviðið og tilkynnti að Hetfield hefði veikst og því yrði ekkert af tónleikunum. Ulrich lofaði Svíum því, að hljómsveitin myndi bráðlega koma aftur til Svíþjóðar og bæta þeim, sem mættu í Globen, þetta upp.
Talið er að Hetfield hafi fengið matareitrun. Hann var útskrifaður af Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í gærkvöldi.