Bristol Palin, dóttir Söruh Palin, ríkisstjóra í Alaska, og Levi Johnston, barnsfaðir hennar, hafa slitið trúlofun sinni. Bristol, sem er 18 ára, komst í heimsfréttirnar þegar upplýst var að hún væri barnshafandi en Sarah móðir hennar var varaforsetaefni bandaríska Repúblikanaflokksins á síðasta ári.
Miklar vangaveltur voru um það í Bandaríkjunum að þungunin kynni að skaða möguleika Johns McCains, forsetaframbjóðanda repúblikana, á að verða kjörinn forseti landsins. Það mæltist hins vegar vel fyrir, að Bristol skyldi hafa ákveðið að eignast barnið og giftast barnsföður sínum.
Bristol og Johnson opinberuðu síðan trúlofun sína og sonur þeirra kom í heiminn í desember. Í gær staðfesti Johnson hins vegar við AP fréttastofuna, að þau Bristol hefðu ákveðið að slíta trúlofun sinni.