Sænsk-danska sakamálamyndin Menn sem hata konur, sem gerð er eftir samnefndri skáldsögu Stiegs Larssons, hefur slegið í gegn á Norðurlöndunum og stefnir í að hún verði mest sótta norræna kvikmynd sögunnar.
Kvikmyndin var frumsýnd í Danmörku og Svíþjóð fyrir rúmum hálfum mánuði og í Noregi um helgina og hafa nú 1.257.000 séð myndina í löndunum þremur. Aðsóknin er hlutfallslega best í Danmörku þar sem rúmlega 560 þúsund manns hafa séð myndina í kvikmyndahúsum. Þarlendir gagnrýnendur báru einnig lof á myndina en sænskir gagnrýnendur voru ekki eins hrifnir.
Danski leikstjórinn Niels Arden Oplev leikstýrði myndinni en sænsku leikararnir Michael Nyqvist og Noomi Rapace leika aðalhlutverkin.