„Ég hef verið að berjast gegn þessu í mörg ár, en það hlustar enginn á mig. En ef þetta heldur svona áfram hætti ég að gefa út tónlist,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sem hefur fengið sig fullsaddan á því að fólk geti náð í tónlistina hans án þess að greiða fyrir hana. Hann segir að ef ekki verði breyting á muni hann hætta að gefa út tónlist áður en langt um líður.
„Ég er mjög alvarlega að íhuga þetta. Þá mun ég bara lifa á því að spila á tónleikum. Þá myndi ég sennilega fara þá leið að taka upp eitt og eitt lag og setja í útvarp.“
Bubbi segir ekki eingöngu um það að ræða að fólk geti náð í tónlist sína á netinu án þess að borga, heldur séu innlendir aðilar einnig farnir að selja verk hans á netinu, án alls samráðs við hann. „Ef maður leitar að Bubba Morthens á netinu kemur í ljós að menn eru bæði að bjóða tónlistina mína og alla katalóga til sölu á netinu. Þannig að ég sé ekki tilganginn með þessu. Þetta er lifibrauðið mitt og ég get ekki verið að mata einhverja ræningja á tónlistinni minni. Það kostar mig frá einni og upp í fimm milljónir að gera plötu. Fjórir naglar kostaði mig til dæmis um það bil 4,5 milljónir,“ útskýrir Bubbi og bætir því við að vegna niðurhals verði hann af tekjum af sölu á 500 til 2.000 plötum við hverja útgáfu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðnu í dag