Dómari í Bandaríkjunum féllst í gær á kröfu föður söngkonunnar Britney Spears um varanlegt nálgunarbann á ljósmyndarann Adnan Ghalib sem sagður er hafa verið kærasti hennar skömmu áður en hún var svipt sjálfræði á síðasta ári.
Nálgunarbannið gildir til ársins 2012 og á við um Spears, foreldra hennar og tvo unga syni. Er Ghalib bannað að nálgast þau eða reyna með nokkrum hætti að setja sig í samband við þau. Þá er honum bannað að halda því fram að hann starfi fyrir hana.
Í dómskjölum kemur fram að Ghalib hafi reynt að hlutast til um málefni Spears m.a. með því að kynna sig sem fulltrúa hennar. Ghalib á einnig yfir höfði sér ákæru vegna líkamsárásar en hann er sagður hafa reynt að aka á fulltrúa yfirvalda sem reyndi að afhenda honum fyrri nálgunarbannsúrskurð.
Samsvarandi mál gegn Sam Lutfi, fyrrum umboðsmanni Spears, verður tekið fyrir síðar. Fram kom í fyrri fyrirtöku þess máls að Lutfi hafi m.a. setið um hárgreiðslukonu Spears á síðasta ári til að reyna að komast í samband við Spears.