Kristófer Breki Berglindarson er aðeins 8 ára gamall en hann hefur fengið ófáa verðlaunagripi þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur verið búsettur í Bretlandi í um tvö ár og byrjaði þar að æfa á skíðum í svokölluðum „dry-slopes“, gervibrekkum án snjós.
Síðan hefur hann skipað sér í flokk þeirra bestu á sínum aldri og raðað inn verðlaunagripum, nú síðast í Frakklandi þar sem hann keppti fyrir hönd breska landsliðsins og skíðaði um leið í snjó í fyrsta skipti á ævinni. „Þar sáu hann þjálfarar frá Frakklandi sem hafa verið með franska landsliðið og þeir sögðu að þessi strákur ætti eftir að verða góður,“ segir Hrefna Halldórsdóttir, amma Kristófers. „Hann er ofsalega týpískur, íslenskur strákur, en allt öðruvísi en Bretarnir og þeir taka eftir því.“
Síðan hefur Kristófer æft af miklu kappi undir handleiðslu þjálfara. Hann hlaut styrk frá skíðahöllinni í Manchester, þar sem hann fær að æfa frítt, en auk skíðanna æfir hann júdó, fótbolta, trampólín og sund eftir ráðleggingum þjálfaranna, til að byggja upp alla vöðva líkamans. Amma Kristófers segir hann hafa mjög gaman af öllum íþróttum þótt skíðin séu í uppáhaldi. Bretunum finnst það einkar viðeigandi að skíðakappinn sé íslenskur, en það má heita kaldhæðnislegt að hann hafi ekki byrjað að iðka íþróttina fyrr en hann flutti til Bretlands.
„Hann hefur aldrei skíðað á Íslandi. En hann skíðar hinsvegar alltaf með íslenska fánann á hjálminum sínum,“ segir Hrefna. Þjálfarar Kristófers eru metnaðarfullir fyrir hans hönd og sjálfur nýtur Kristófers þess að keppa.