Greint hefur verið frá því að fjölskylda bresku leikonunnar Natasha Richardson hafi gefið líffæri hennar er hún lést í kjölfar skíðaslyss þann 18. mars.
„Hún varði svo miklum tíma í að berjast gegn því að smánarblettur fylgdi alnæmi. Þannig manneskja myndi telja eðlilegt að gefa líffæri sín,” segir ónefndur vinur Richardson í viðtali við tímaritið People. „Með því að gefa líffærin stuðlar þessi harmleikur að einhverju góðu.”
Eiginmaður Richardson Liam Neeson og móðir hennar Vanessa Redgrave eru sögð hafa tekið ákvörðun um þetta eftir að hún var flutt á Lenox Hill sjúkrahúsið í New York.
Annar vinur fjölskyldunnar segir að synir þeirra Micheal, 13 ára, og Daniel, 12 ára, muni brátt mæta í skóla á ný og að Neeson hyggist brátt snúa aftur til Kanada þar sem hann vann að kvikmyndatökum vegna myndarinnar 'Chloe' er eiginkona hans slasaðist.