Hljómsveitin Coldplay, sem hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár, hefur ákveðið að taka sér frí því meðlimirnir óttast að aðdáendurnir hljóti að fara að verða leiðir á þeim.
Hljómsveitin hefur því slegið á frest hugmyndum um að hefja vinnu við plötuna sem á að koma í kjölfar nýjustu afurðarinnar, Viva la Vida or Death and All His Friends. Samkvæmt BangShowbiz-fréttaveitunni segjast þeir líka vilja hugleiða betur hvaða stefnu þeir eigi að taka næst, tónlistarlega.
„Við höfum leikið mun meira á tónleikum en við ætluðum,“ segir gítarleikari sveitarinnar, Johnny Buckland. „Við höfum þess vegna ekki haft neinn tíma til að velta nýjum verkefnum fyrir okkur. Og svo þarf fólk á hvíld frá okkur að halda.
Við förum í frí og sjáum svo til.“