Svo virðist sem Elísabet Bretlandsdrottning hafi látið forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, fara í taugarnar á sér er hún hitti leiðtoga 20 helstu iðnríkja heims í Lundúnum í vikunni. Á myndskeiði sem birt er á YouTube sést að hávaðinn í Berlusconi fer í taugarnar á drottningunni þrátt fyrir að hún reyni að láta ekki á því bera.
Leiðtogarnir heimsóttu Bretlandsdrottningu í Buckingham höll og var tekin hópmynd af þeim. Berlusconi kallar hátt og snjallt þegar myndatökunni er lokið: „Herra Obama". Snéri Elísabet drottning sér við og spyr hvað í ósköpunum þetta hafi verið.
En Berlusconi á ekki að hafa tekið þetta nærri sér enda alvanur því að ummæli hans valdi gleði hjá sumum en gremju hjá öðrum. Til að mynda fór lýsing hans á Barack Ombama, forseta Bandaríkjanna, fyrir brjóstið á ýmsum en Berlusconi lýsti honum á þennan hátt: „Ungur, myndarlegur og sólbrúnn."
Eitt myndskeið af mörgum á YouTube frá myndatökunni