Fjölmiðlafulltrúi Söruh Palin, ríkisstjóra í Alaska, hefur lýst því yfir að það hafi valdið fjölskyldunni miklum vonbrigðum að Levi Johnston, fyrrum unnusti og barnsfaðir dóttur hennar Bristol, skuli hafa tjáð sig um samband þeirra í fjölmiðlum.
Johnston, sem er nítján ára, kom nýlega fram í sjónvarpsþættinum Tyra Banks Show og sagði þar m.a. að hann teldi að foreldrar Bristol hafi gert sér grein fyrir því að þau stunduðu kynlíf er hann bjó á heimili þeirra. Johnston og Palin slitu nýlega trúlofun sinni en þau eiga son á fyrsta ári.
„Það veldur okkur vonbrigðum að Levi og fjölskylda hans skuli í leit að athygli, frægð og fjármunum, taka þátt í að dreifa lygum, ýkjum og rangtúlkunum á sambandi þeirra,” segir fjölmiðlafulltrúinn Meghan Stapleton.
„Bristol leggur nú áherslu á að ala upp Tripp, ljúka námi og tala fyrir skírlífi fram að giftingu. Það er óheppilegt að Levi skuli hafa meiri áhuga á að græða á fyrra sambandi sínu við Bristol en að leggja sitt að mörkum til velferðar barnsins. Bristol gerir sér grein fyrir því að hún hafi gert mistök í sambandinu og það er hún sem axlar ábyrgðina á gerðum þeirra beggja.”