Bandaríska leikkonan Lindsay Lohan hefur greint frá því að henni líði bölvanlega eftir nýleg sambandsslit hennar og plötusnúðarins Samantha Ronson.
Lohan hefur nú staðfest orðróm um að stúlkurnar hafi slitið árslöngu ástarsambandi sínu og að henni hafi verið meinaður aðgangur að næturklúbbi þar sem Ronson sá um tónlistina síðastliðinn föstudag. Ronson hefur hins vegar borið til baka fréttir af því að hún hafi farið fram á nálgunarbann gegn Lohan.
„Þetta er algert helvíti. Þetta er bara virkilega sárt. Þetta er bara allt saman virkilega sjúkt,” segir Lohan í viðtali við tímaritið Us Weekly. „Þetta var versta kvöld ævi minnar.” Vísar hún þar til föstudagskvöldsins en eftir að henni var meinuð innganga í klúbbinn sakaði hún Ronson um fíkniefnaneyslu og framhjáhald á samskiptavefnum Twitter.
„Ég er 22 ára stelpa sem er ástfangin. Mér leið eins og ég væri í myndinni 'Mean Girls', bara verr. Því 'Mean Girls' var mynd," segir hún. “Ég er ekki slæm manneskja en þetta er það sem gerist. Mér var kennt að koma vel fram við fólk og ég er svo þreytt á þessum látum.”