Björn Ulvaeus úr ABBA hefur mikinn áhuga á að starfa með velsku söngkonunni Duffy enda sé hann mikill aðdáandi hennar.
„Í hvert skipti sem ég stíg inn í bílinn minn set ég „Mercy“ með Duffy í tækið. Hún er frábær og mjög óhefðbundin söngkona. Ég kann vel að meta frumlegan hljóminn og auðgreinanlega röddina. Ef Duffy færi fram á að nota gamalt ABBA-lag og hygðist nýta það með jafn frumlegum hætti og Madonna myndi ég segja já eins og skot,“ segir Björn en eins og menn muna blandaði Madonna ABBA-laginu „Gimme! Gimme! Gimme! (A Man After Midnight)“ í lagið „Hung Up“.
En Björn er ekki aðdáandi allrar nýrrar tónlistar. „Ég þoli ekki verksmiðjutónlist, tónlist sem er framleidd með það eitt að markmiði að græða pening. Bítlarnir spiluðu sína eigin tónlist á sínum eigin forsendum og í mínum huga það besta sem gert hefur verið. Í dag kemst Coldplay næst því að leika það eftir.“
Aðspurður út í velgengni Mamma Mia-söngleiksins viðurkennir Björn að vinsældirnar hafi komið honum á óvart og hann grunaði aldrei þegar þau tóku þátt í Evróvisjón árið 1974 með „Waterloo“ að sveitin yrði svo vinsæl enn þann dag í dag.