Stella McCartney, tískuhönnuður og dóttir Bítilsins Pauls McCartneys, er með tónlist pabba gamla á iPodinum sínum.
Stella hélt tískusýningu í San Francisco í byrjun mánaðarins. Þar hefur hún aldrei sýnt áður og raunar hefur hún aðeins einu sinni áður komið til þessarar borgar á vesturströnd Bandaríkjanna, en þá var hún enn á unglingsaldri.
Í viðtali við heimablaðið San Francisco Chronicle sagðist hún hafa þá mynd af borginni að hún væri frjálslynd og hrein. „Þetta er fersk borg, dálítið svöl, með borgar-hippa-sjarma. Þetta er staður þar sem fólk getur andað léttar og slakað á,“ sagði hönnuðurinn.
Eftir að hafa svarað því sem borgarbúar vildu helst heyra ræddi Stella stuttlega um hönnun sína. Í lokin var hún spurð hvaða tónlist væri á iPodinum hennar. „Bíðum nú við, nú þarf ég að hugsa. Hmmm. Pet Sounds með Beach Boys, Rubber Soul með Bítlunum, Nirvana, Rolling Stones, hellingur af Radiohead og Arctic Monkeys,“ svaraði hún.
Paul er áreiðanlega lukkulegur með þetta.