Phil Spector fundinn sekur um morð

Kviðdómur í Los Angeles fann í kvöld bandaríska upptökustjórann Phil Spector sekan um manndráp og taldi sannað að hann hefði skotið leikkonu til bana í húsi sínu fyrir fimm árum. 

Spector, sem er 69 ára, var greinilega brugðið þegar dómurinn var lesinn upp og Rachelle, eiginkona hans, brast í grát. Spector kom í réttarsalinn klæddur síðum jakka að venju með tvö barmmerki. Á öðru stóð: Barack Obama Rocks og á hinu var bandaríski fáninn. 

Spector var fluttur í handjárnum í varðhald eftir dóminn en dómarinn hafnaði kröfu verjanda Spectors um að skjólstæðingur sinni fengi að ganga laus gegn tryggingu þar til refsing hans verður ákveðin 29. maí.  Lágmarksrefsing fyrir morð af 2. gráðu er 15 ára fangelsi í Kalíforníu.

Kviðdómurinn velti málinu fyrir sér í rúman hálfan mánuð áður en hann komst að niðurstöðu. Réttarhöldin sjálf stóðu í fimm mánuði. Réttað var einnig yfir Spector árið 2007 vegna sömu ákæru en þá komst kviðdómurinn ekki að niðurstöðu og því voru réttarhöldin ógilt.

Saksóknarar héldu því fram, að Spector hefði skotið leikkonuna Lana Clarkson til bana í húsi sínu 3. febrúar 2003. Þau hittust fyrr um kvöldið í næturklúbbi í Hollywood þar sem Clarkson vann.

Alan Jackson, saksóknari, sagði að Spector væri byssuóður sérvitringur og hefði oft gerst sekur um ofbeldi gegn konum sem vildu ekki láta að vilja hans. Fimm kunningjakonur Spectors báru fyrir réttinum, að Spector hefði ógnað þeim með byssu. 

Verjendur Spectors héldu því hins vegar fram, að Clarkson hefði framið sjálfsmorð. Þeir bentu einnig á að engar púðurleifar hefðu fundist á höndum og í fötum Spectors.

Spector var á sínum tíma eftirsóttur upptökustjóri sem þróaði svonefndan Wall of Sound hljóm og hafði mikil áhrif á dægurtónlist á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hann vann m.a. með Bítlunum, Tinu Turner, The Righteous Brothers, The Ronettes og The Ramones.

Phil Spector og eiginkona hans koma til dómsuppkvaðningarinnar í dag.
Phil Spector og eiginkona hans koma til dómsuppkvaðningarinnar í dag. Reuters
Spector og Clarkson.
Spector og Clarkson. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar