Það er óhætt að segja, að Susan Boyle, 47 ára skosk kona, hafi komið, séð og sigrað þegar hún hóf upp raust sína í sjónvarpsþættinum <i>Bretar hafa hæfileika,</i> sem sýndur er í bresku sjónvarpi. Myndskeið með söng hennar hefur einnig slegið í gegn á YouTube vefnum og hefur á aðra milljón manna skoðað myndskeiðið þar.
Boyle hafði ekki útlitið með sér þegar hún gekk fram fyrir dómarana í þættinum, þau Simon Cowell, Piers Morgan og Amanda Holden, um páskana. Dómunum og áhorfendum var skemmt þegar Boyle virtist ekki muna hvað skoska þorpið, sem hún býr í heitir, og hláturinn magnaðist þegar hún sagðist vilja verða ný Elaine Paige og ætlaði að syngja lagið I dreamed a dream úr söngleiknum Les Miserables.
En þegar Boyle hóf upp raust sína kom annað hljóð í strokkinn því hún reyndist hafa fallega og öfluga söngrödd og flutti lagið, sem er býsna erfitt, með prýði.
Dómaranir voru síðan á einu máli um að Susan Boyle ætti að halda áfram í lokakeppnina.
Susan Boyle í Bretar hafa hæfileika