Forsetahundurinn Bo er ekki einu sinni fluttur inn í Hvíta húsið og þegar hefur verið ákveðið að skrifa barnabók um ævintýri hans. Bókin verður gefin út í næstu viku eða á sama tíma og Barack Obama og fjölskylda hans tekur á móti hundinum.
Sky fréttastofan greinir frá því að lítil bókaútgáfa í Virginíu hafi unnið að verkefninu undanfarna tvo mánuði. Töluvert styttra er hins vegar síðan Bo var valinn. Var það leyst með því að skilja eftir pláss fyrir myndir af hundinum.
Bókin mun fjalla um ævintýri forsetahundsins í og við Hvíta húsið. Bo mun leika sér að rólum dætra Obama og spila körfubolta við forsetann.
Bo er sex mánaða gamall, svartur og hvítur að lit og af tegundinni portúgalskur vatnahundur.