Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Bíódaga Græna ljóssins, kvikmyndahátíðar sem hefst um helgina, segir að rekstur hátíðarinnar sé erfiður um þessar mundir.
Margt komi til, svo sem minnkandi aðsókn, lágt gengi krónunnar og sú staðreynd að erfitt sé að finna styrktaraðila. Þá segir hann að niðurhal kvikmynda komi afar illa við hátíðina. „Margir sem ég tala við eru búnir að sjá þessar myndir og það er meira að segja Torrent-síða sem er haldið úti af einhverjum Íslendingum, og þar er sér svæði sem heitir Bíódagar þar sem hægt er að horfa á 16 af þessum 17 myndum. Þannig að þetta niðurhal er hætt að vera truflandi, það er farið að kyrkja mann,“ segir Ísleifur.
Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Mark Hartley, leikstjóra myndar sem sýnd er á hátíðinni.