Vetur verður kvaddur með virktum í Bláa lóninu þegar Íslenski dansflokkurinn sýnir þar verkið Transaquania - Out of the blue síðasta vetrardag.
Allir dansarar dansflokksins taka þátt í uppsetningunni en höfundar verksins eru dansararnir Erna Ómarsdóttir og Damien Jalet ásamt listakonunni Gabríelu Friðriksdóttur. Frumsamin tónlist við verkið er eftir reykvísk-ástralska tónskáldið Ben Frost og gítar- og bassaleikarann Valdimar Jóhannsson.
„Þegar mér bauðst þetta verkefni fannst mér strax mjög heillandi hugmynd að gera eitthvað fyrir utan leikhúsveggina. Svo er þetta svæði auðvitað mjög sérstakt og það blés mér strax í brjóst,“ segir Erna. Hún fékk síðan Jalet og Gabríelu til liðs við sig en þau hafa öll unnið saman áður og skapa þetta verk í sameiningu.
„Við köllum þetta viðburð í lóninu frekar en danssýningu því verkið er í vinnslu og verður þróað frekar. Hugmyndin er að fara á fleiri svona staði, sem sameina náttúru og iðnað, og þróa verkið. Lokaútkoman yrði svo sýnd á sviði á næsta ári. Þessi sýning er aðeins fyrsta skrefið í þessu ferli.“
Spurð út í verkið segir Erna að þau hafi ímyndað sér hverskonar líf gæti kviknað í lóninu í sköpunarferlinu. „Það verða allskonar verur og furðudýr sem lifna við í lóninu,“ segir hún leyndardómsfull en hugmyndin að baki verkinu er að í hinum silkikennda bláma lónsins kviknar líf. Á töfrandi hátt birtast áhorfandanum afkvæmi hinnar dulúðlegu alkemíu lónsins og í ljósaskiptunum tekur þróunarsaga þessa nýja og óræða lífheims á sig ægifagrar en um leið ógnvekjandi myndir... spennandi.
Transaquania - Out of the blue verður sýnt í Bláa lóninu að kvöldi síðasta vetrardags, miðvikudaginn 22. apríl, og verður aðeins þessi eina sýning.