Rauði sundbolurinn sem prýddi kynbombuna Pamelu Anderson í þáttunum Baywatch (Strandvörðum) verður boðinn upp í Los Angeles í lok mánaðarins.
Reiknað er með að bolurinn sem er áritaður af Pamelu með orðunum „Ást, Pamela Lee, XO“ muni fara á um 400 þúsund krónur en einhverjir myndu segja það gjöf en ekki gjald fyrir jafn þekkta flík og sundbolurinn óneitanlega er.
Á meðal þess sem einnig verður boðið upp á sama tíma er byssa sem Harrison Ford mundaði mynduglega í kvikmyndinni Blade Runner frá árinu 1982 en gripurinn sá er metinn á rúmar 13 milljónir. Þá má einnig nefna hljóðnema sem var í eigu Doors söngvarans Jims Morrison, handskrifaðan lagatexta eftir Mick Jagger úr Rolling Stones og byssupar sem Angelina Jolie notaði í Tomb Raider.