Bláfátækur faðir hinnar níu ára gömlu leikkonu, Rubina Ali, sem fór með hlutverk í óskarsverðlaunamyndinni Viltu vinna milljarð, hefur nú boðið dóttur sína „til sölu" fyrir 200 þúsund pund eða um 47,5 milljónir króna.
Faðir Rubinu, Rafiq Qureshi, býr í einu af verstu fátækrahverfum Mumbai, hefur gert tilraun til að bjóða dóttur sína ólöglega til ættleiðingar, að því er fram kemur í frétt The Independent. Hann mun hafa sagt við mann, sem sagðist áhugasamur um ættleiðinguna, að fjölskyldan væri að hugsa um framtíð Rubinu.
„Við fengum ekkert út úr þessar kvikmynd," sagði Qureshi. „Þeir létu okkur fá svolítinn pening í byrjun en við höfum ekkert fengið síðan. Við fengum um 150 þúsund rúpíur (um 380 þúsund krónur). Þeir töluðu um að láta okkur fá hús en hafa bara talað um það."
Qureshi vísaði gestinum til mágs síns sem sagði honum að Rubina lifði ömurlegu lífi með stjúpmóður sinni. Oftast dveldi hún hjá sér það sem henni liði ekki vel heima við. „Ef þú hefur áhuga á að ættleiða hana getum við rætt það en foreldrar hennar vænta þess að fá almennilegar fébætur fyrir. Við erum að tala um 50 þúsund pund (um 9,5 milljónir króna) svo að þetta geti orðið." Síðan mun verðið hafa hækkað í 200 þúsund pund.
Bróðir hans, Mohiuddin, mun hafa sagt að barnið væri núna sérstakt. „Þetta er ekki venjulegt barn. Þetta er Óskarsbarn."
Í kvikmyndinni segir frá því hvernig einn af fátækustu mönnum Indlands vinnur indversku útgáfuna af sjónvarpsspurningakeppninni Viltu vinna milljarð. Kvikmyndin hefur halað inn yfir 35 milljörðum króna í aðgangseyri um allan heim.
Faðir Rubinu, Qureshi sagði að þrátt fyrir velgengni myndarinnar hafi fjölskyldan aðeins fengið lítið fé fyrir. „Líf okkar er alveg eins og því er lýst í myndinni. Ríkisstjórnin hjálpar okkur ekki. Við eigum ekkert. Við búum í einu herbergi þar sem sjö sofa á gólfinu. Ég þéna 380 - 570 krónur á dag. Ég verð því að huga að því hvað sé best fyrir mig, fjölskyldu mína og framtíð Rubinu."