Breski rithöfundurinn JG Ballard er látinn, 78 ára að aldri, eftir langvinn veikindi. Ballard er þekktastur fyrir skáldsöguna Empire of the Sun, sem byggði á barnæsku hans í Shanghai í Kína. Bandaríski leikstjórinn Steven Spielberg gerði kvikmynd eftir bókinni árið 1987.
James Graham Ballard fæddist í Shanghai en foreldrar hans voru enskir. Fjölskyldan flutti til Englands árið 1946 eftir að hafa dvalið í fangabúðum Japana í Kína. Ballard hóf rithöfundarferil sinn á að skrifa vísindaskáldsögur og naut talsverðra vinsælda en frægð hans jókst til muna þegar Empire of the Sun var gefin út árið 1984.
Kvikmyndir voru gerðar eftir fleiri sögum hans, þar á meðal Crash, sem kom út árið 1973 og fjallaði um „kynörvun bílslysa". Kanadíski leikstjórinn David Cronenberg kvikmyndaði bókina árið 1996.