Einleikurinn Djúpið eftir Jón Atla Jónasson, sem var frumsýndur í Skotlandi í byrjun mánaðarins, hefur verið valinn sem eitt verka í jaðarhluta leiklistarhátíðarinnar í Edinborgar, Edinburgh Fringe, sem haldin verður í byrjun ágúst. Undanfarnar vikur hefur verkið verið flutt víða í Skotlandi í leikstjórn Skotans Graeme Maley, en með aðalhlutverkið, og eina hlutverkið, fer annar Skoti, Liam Brennan.
Jón Atli vill ekki gera of mikið úr því að aðstandendum verksins hafi verið boðið að flytja það á Edinborgarhátíðinni, enda sé hátíðin öllum opin í sjálfu sér.
„Þetta er þó skemmtilegt ævintýri og gott að fá inni í góðum sal,“ segir hann og samsinnir því þó að það sé ákveðin viðurkenning á gæðum verks að vera valið þangað inn, en einn úr framkvæmdanefnd hátíðarinnar sá Djúpið og óskaði eftir því að fá það á hátíðina í framhaldinu.
Eins og fram kemur hefur verkið verið sýnt víða á Skotlandi undanfarið og Jón Atli segir að það hafi almennt fengið fínar viðtökur og góðar umsagnir, enda skilji áhorfendur í skoskum sjávarþorpum verkið eflaust mjög vel í ljósi þess hve þeir eiga mikið sameiginlegt með íbúum fiskiþorpa á Íslandi; þeir hafi glímt við sama veruleika og sömu erfiðleika í gegnum tíðna. „Reynsluheimur þeirra er svo svipaður, þetta er svo svipuð menning, þetta eru nágrannar okkar að vissu leyti.“
Djúpið, The Deep, verður sýnt í Assembly Rooms-salnum í Edinborg á Edinburgh Fringe-hátíðinni í ágúst. Þess má svo geta að verkið verður frumsýnt hér á landi í íslenskum búningi í Borgarleikhúsinu í lok maí með Ingvar E. Sigurðsson í aðalhlutverki.
Í hnotskurn