Leikstjórinn Spike Lee er með allsérstæða heimildamynd í farvatninu, en hún fjallar um Kobe Bryant, hinn umtalaða leikmann Los Angeles. Myndin heitir Kobe Doin' Work og gerist í einum leik, en Lee nýtti sér þrjátíu myndavélar til að ná hverri einustu hreyfingu, brosviprum og kippum inn á band.
Myndin er innblásin af listrænu heimildarmyndinni Zidane: A 21st Century Portrait, sem fjallar um Zinedine Zidane og fylgdi sömu formerkjum. Leikurinn sem var til grundvallar var á milli Lakers og San Antonio Spurs og fór fram 13. apríl í fyrra. Byant hljóðritaði svo athugasemdir sínar um framgang leiksins. Það er þá Bruce gamli Hornsby, af öllum mönnum („The Way it is“), sem sér um tónlistina.