Bandaríski kvikmyndaleikarinn Kiefer Sutherland er sagður ætla að gefa sig fram við lögreglu vegna árásar á tískuhönnuðinn Jack McCollough. Talið er líklegt að Sutherland verði ákærður fyrir líkamsárás á McCollough en hann er sagður hafa skallað hönnuninn á næturklúbbnum SubMercer.
Sutherland er þegar á skilorði vegna þriggja ára dóms sem hann hlaut árið 2007 fyrir að aka undir áhrifum. Hann afplánaði á sínum tíma 48 daga af fangelsisdómnum sem hann hlaut vegna málsins. Talsmaður saksóknara í New York segir að skoðað verði hvort skilorð hans verði dregið til baka.
„Við eigum eftir að ákveða hvort tilkynnt verður um brot gegn skilorði en ef það verður gert gæti hann þurft að afplána það sem eftir stendur af þeim fangelsisdómi sem hann var upphaflega dæmdur til,” segir hann. „Hann gæti þurft að fara aftur í fangelsi en það eru hörðustu viðurlög og slíkt fer mikið eftir eðli málsins.”
„Þegar lögfræðingur hans gerði honum gein fyrir því að ljósmyndarar gætu setið um Sutherland vegna málsins næstu tvær til þrjár vikurnar ákvað hann að gefa sig fram og gera málið upp þannig,” segir ónefndur lögreglumaður í samtali við blaðið New York daily News.
Staðhæft er í bandarískum fjölmiðlum að Sutherland hafi slegið McCollough eftir að hann sá hann sýna leikkonunni Brooke Shields lítilsvirðingu eftir samkvæmi Metropolitan Museum of Art. Fjölmiðlafulltrúi hennar segir hana hins vegar ekki tengjast málinu.