Breska verslunarkeðjan Marks & Spencer varð að játa sig sigraða í dag þegar verð á brjóstahöldurum í stórum númerum var lækkað og er nú það sama og á þeim minni.
Þrettán þúsund manns skrifuðu undir áskorun á samskiptavefnum Facebook þess efnis að stóru brjóstahaldararnir yrðu lækkaðir. Beckie Williams, 26 ára gömul kona, sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni, var afar ánægð í morgun þegar M&S auglýsti verðlækkunina í heilsíðuauglýsingum í öllum helstu blöðum landsins.
„Ég er afar ánægð fyrir hönd allra kvennanna í hópnum," sagði Williams við GMTV sjónvarpsstöðina.
Hópurinn, Busts 4 Justice, sagði að 2 punda aukagjald (380 króna) M&S á brjóstahöld sem eru af stærðinni DD og stærri, væri glæpsamlega óréttlátt. Williams keypti hlutabréf fyrir 3,40 pund í M&S svo hún gæti mætt á aðalfund félagsins í júlí og tekið málið upp þar.
M&S hafði áður sagt, að verðlagning á brjóstahöldurum væri réttlát en í morgun sagði talsmaður fyrirtækisins, að verð á þessari flík yrði það sama í verslununum án tillits til stærðar.