Vestmannaeyjabær hefur opnað Sigmundsvef en þar er að finna um tíu þúsund teikningar Sigmund Jóhannssonar sem birtust í Morgunblaðinu.
Úthlutun styrkja frá Menningarráði Suðurlands fór fram í Akógeshúsinu í Vestmannaeyjum í gær. Í ár bárust ráðinu 146 umsóknir um styrki upp á 128 milljónir króna en úthlutað var til 105 aðila, samtals rúmlega 34 milljónum.
Við afhendingu styrkjanna var opnaður Sigmundsvefurinn. Samningar um kaup ríkisins á öllum teikningum Sigmund Jóhanssonar sem birst hafa í Morgunblaðinu um áratuga skeið, auk teikninga hans sem birst hafa í öðrum miðlum voru undirritaðir 15. desember 2004. Er um að ræða u.þ.b. 10.000 myndir. Þetta var samþykkt í ríkisstjórn Íslands nýverið, að tillögu forsætisráðherra, í tilefni 60 ára afmælis lýðveldisins Íslands og jafnframt í tengslum við 100 ára afmæli heimastjórnar.
Teikningar Sigmund voru svo síðar afhentar menningarhúsi Vestmannaeyja til varðveislu og sýningar.
Fyrstu teikningar Sigmunds í blöðum eru frá árinu 1960 eða 1961 en þá gerði hann forsíður fyrir Vikuna og Fálkann. Fyrsta mynd hans í Morgunblaðinu birtist 25. febrúar 1964 og tengdist Surtsey og fyrstu landgöngu þar.