Jóhanna Guðrún og fylgdarfólk hennar í Moskvu varð ekki vart við neitt þrátt fyrir mikla sprengingu þegar gasleiðsla sprakk laust fyrir miðnætti, skammt frá höllinni þar sem söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram. Þau voru stödd á Euroklúbbnum þegar sprengingin varð.
Jónatan Garðarsson, fararstjóri Evróvisjónhópsins, segist hafa lesið um sprenginguna og gríðarmiklar elda sem kviknuðu í kjölfarið í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að fram hafi komið eldarnir hafi geisað skammt frá höllinni er það afstætt sökum þess hversu stór Moskvuborg er.
Í gær hélt gríski flytjandinn veislu á Euroklúbbnum og tóku á milli 20-30 flytjendur lagið, þar á meðal Jóhanna Guðrún. Jónatan segir að henni hafi gengið frábærlega vel og gert sitt með „elegans“. Hún hlaut einnig gríðargóðar viðtökur.
Jóhanna Guðrún fer á æfingu klukkan fjögur að staðartíma en þangað til verður hún í afslöppun uppi á hóteli, enda búin að taka vel á því í ræktinni í morgun. Í kvöld er svo opnunarkvöldið og heljarinnar móttaka og veisluhöld í kringum það. Þar verða bæði flytjendur og fylgdarlið.