Lokaæfingin fyrir fyrri undanúrslit Eurovison söngvakeppninnar fór fram í dag. Að sögn vefjarins Esctoday.com, sem sérhæfir sig í Eurovision-fréttum, fengu Íslendingar, Svíar, Armenar, Tyrkir og Bosníumenn bestar viðtökur áhorfenda í salnum.
Á opinberum vef keppninnar segir, að margir áhorfendur í salnum hafi staðið upp og fagnað eftir að Jóhanna Guðrún hafði sungið.
Fyrri undanúrslitin fara fram á morgun og þá mun Jóhanna Guðrún flytja lagið Is it True? fyrir hönd Íslands. Sýnt verður beint frá keppninni í Sjónvarpinu.
Esctoday segir, að æfingin í dag hafi gengið þokkalega en þó hafi ýmsir tæknilegir örðugleikar gert vart við sig.