„Ég var skelkaður en hef það nú fínt,“ sagði danski Eurovision-farinn Niels Brinck við DR eftir síðara undankeppniskvöldið í keppninni í Moskvu í gærkvöldi. Og af hverju var hann svona hræddur? Jú, búið var að kjósa sex Austur-Evrópulönd upp úr hattinum áður en kom að honum. Það voru Aserbaídjan, Króatía, Úkraína, Litháen, Albanía og Moldóva.
Brinck telur að lag hans, Believe Again, vaxi í huga fólks við frekari hlustun.
Úrslitakeppni Eurovision hefst klukkan sjö á laugardagskvöld. En klukkan 16.35 þennan sama dag verður upptaka frá opnunarhátíð Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fór í Moskvu á sunnudagskvöld sýnd. Þar koma fram gamlar og nýjar Eurovision-stjörnur, meðal annars Carola frá Svíþjóð, Ruslana frá Úkraínu, Dana International sem söng fyrir Ísrael 1998 og Dima Bilan, rússneski söngvarinn sem vann í fyrra og keppti í Aþenu í Grikklandi 2006.