Umboðs og almannatengslafyrirtækið Can Associates hefur slitið samstarfi sínu við fyrirsætuna Katie Price (Jordan) í kjölfar frétta af því að tónlistarmaðurinn Peter Andre, eiginmaður hennar, hafi sótt um skilnað. Fyrirtækið mun áfram starfa fyrir Andre.
Price hefur lýst því yfir að hún sé niðurbrotin vegna skilnaðarins en hún hitti Andre er þau komu bæði fram í raunveruleikasjónvarpsþættinum „I'm A Celebrity... Get Me Out of Here!”
Þau giftust árið 2005 og var hún þá klædd umfangsmiklum bleikum kjól og kom til brúðkaupsins í vagni í anda teiknimyndarinnar um Öskubusku.
Hjónin hafa m.a. komið fram í raunveruleikasjónvarpsþáttum þar sem áhorfendur hafa að undanförnu getað fylgst með heiftarlegum rifrildum þeirra.