„Þetta fór langt fram úr mínum vonum," sagði Jóhanna Guðrún Jónsdóttir við mbl.is eftir Evróvisjónkeppnina í Moskvu í kvöld en hún endaði þar í 2. sæti á eftir Norðmanninum Alexander Rybak.
María Björk Sverrisdóttir, sem var í íslenska hópnum í Moskvu, sagði einnig, að árangurinn væri betri en Íslendingar hefðu þorað að vonast eftir. Mikil gleði ríkti í hópnum í kvöld eftir keppnina.
Athygli vakti að margar þjóðir frá Austur- og Suður-Evrópu gáfu Íslandi stig í keppninni en Íslendingar hafa ekki átt upp á pallborðið hjá þeim til þessa. „Ætli Jóhanna Guðrún hafi ekki heillað þá," sagði María Björk.
Jóhanna Guðrún sagði í viðtali við Sjónvarpið að hún hefði búist við að vera í einu af 10 efstu sætunum en þessi árangur hefði verið framar öllum vonum. „Ég er í skýjunum. Ég er enn að reyna að átta mig á að hafa lent í 2. sæti," sagði hún.
„Við vorum mjög einbeitt. Ég hef hugsað lengi um þetta, ég hugsaði stórt og stefndi langt," sagði Jóhanna Guðrún um ástæður þess að þessi árangur náðist.
Íslendingarnir halda af stað til Íslands snemma í fyrramálið frá Moskvu.