Bandaríska dansmærin listræna Dita von Teese, sem aðstoðaði Þjóðverja í Evróvisjón söngvakeppninni í gærkvöldi, segist ekkert botna í Evrópubúum eftir að úrslitin lágu fyrir.
„Agndofa og höggdofa yfir að besta frammistaðan skyldi ekki komast nálægt efstu sætunum! Danmörk, Úkraína, Eistland. Allt frábærar sýningar og lög. Yfirgengilegt!" skrifar hún á samskiptavefinn twitter.
Dita von Teese er þekkt fyrir að dansa fáklædd á sviði og einnig fyrir að vera fyrrverandi eiginkona bandaríska tónlistarmannsins Marilyn Manson. Atriði hennar í Moskvu í gærkvöldi var raunar afar siðsamlegt og Evrópubúar létu sér fátt um finnast: Þjóðverjar enduðu í 20. sæti af 25 keppnisþjóðum.
Dansmærin hefur þó hrist vonbrigðin af sér. „Ég er að fara til Cannes á kvikmyndahátíðina. Ég verð með sýningu í VIP Room á mánudagskvöld & síðan fer ég í smá frí. Ég er tilbúin!"