Borgarbúum gefst tækifæri til að taka á móti Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur á Austurvelli á sérstökum fagnaðarfundi sem Reykjavíkurborg og RÚV halda í tilefni velgengni íslenska hópsins í Evrópusöngvakeppninni. Sjónvarpað verður beint frá athöfninni.
Að sögn Þórhalls Gunnarssonar dagskrárstjóra mun Páll Óskar halda uppi fjörinu og byrjar hann að hita upp nokkru áður en útsendingin hefst kl. 17:30. Hvetur Þórhallur sem flesta til að mæta í góða veðrinu. Gert er ráð fyrir að íslenski Evróvisjónhópurinn stígi á svið um kl. 18.
„Okkur langaði að veita borgarbúum tækifæri til að taka á móti og fagna með Jóhönnu. Hún var landi og þjóð til mikils sóma í gær,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í tilkynningu.