Jóhanna Guðrun og Rybak hinn norski eru ekki einu hetjur Evróvisjón söngvakeppninnar. Jade Ewen, fulltrúi Breta í Moskvu í gærkvöldi, er nefnilega hetja í augum Diane Warren, höfunds lagsins It's My Time sem Ewen skilaði í fimmta sæti.
Bretar eru enn að jafna sig eftir að hinn skelfilegi Andy Abraham lenti í síðasta sæti í fyrra en hafa nú um margt fengið uppreisn æru með árangri Ewen sem Andrew Lloyd Webber uppgötvaði í hæfileikaþættinum Your Country Needs You á útvarpsstöðinni Radio One.
Ewen kvaðst enn vera „í sjokki“ þegar úrslitin voru borin undir hana í dag en Webber kveðst fullviss um að keppnin verði hinni 21 árs gömlu söngkonu stökkpallur að glæstri framtíð.
Er Webber þar með á öndverðum meiði við Árna Matthíasson, menningarblaðamann á Morgunblaðinu, sem hélt fram því gagnstæða í greininni „Evróvisjón - Stökkpallur út í tómið“.
Árni skrifaði:
„Síðustu árin hefur þessi vinsældaþurrð gengið svo langt að viðkomandi listamenn hafa ekki einu sinni náð umtalsverðum vinsældum í eigin heimalandi, sem þó valdi lagið í keppnina. Dæmi um það eru Linda Martin, sem sigraði 1992, Paul Harrington & Charlie McGettigan sem sigruðu 1994, Eimear Quinn sem sigraði 1996, Tanel Padar og Dave Benton sem sigruðu 2001, Marie N sem sigraði 2002 og Helena Paparizou sem sigraði 2005.
Reyndar má skipta í þann hóp öllum sigurvegurum í Evróvisjón síðustu tuttugu árin. Víst eru dæmi um að sigurlag hafi skorað þokkalega á svo lélegum listum sem sænska vinsældalistanum eða þeim moldóvska, en svo ekki söguna meir.“
Aðdáendur söngkonunnar eiga gott í vændum því hún hyggst hefja vinnu við nýja plötu eftir viku afslöppun eftir stranga og langa keppni.