Páll Magnússon útvarpsstjóri mun taka á móti Jóhönnu Guðrúnu á Keflavíkurflugvelli þegar hún kemur þangað um þrjúleytið með flugvél frá Kaupmannahöfn. Útvarpsstjóri kveðst stoltur af frammistöðu hennar í Evrópusöngvakeppninni í gærkvöld.
„Þetta var auðvitað stórglæsileg frammistaða og fór fram úr björtustu vonum. Þetta tókst með þvílíkum ágætum að maður horfði á með mikilli aðdáun. Það er full ástæða til að vera stoltur. Svo var hún svo tillitssöm að ganga eiginlega eins vel og Ríkisútvarpið þoldi. Það hefði ekki þolað meiri velgengni en þetta,“ segir Páll.
Strax að loknum fréttum sjónvarpsins klukkan 19 í kvöld verður aukaþáttur í beinni útsendingu með viðtali við Jóhönnu Guðrúnu og fleiri, að því er Þórhallur Gunnarsson dagskrárstjóri greinir frá.