Gríðarlegur fögnuður og gleði ríkir nú í Noregi þar sem Norðmenn fagna þjóðhátíðardegi sínum sem og stórsigri í Evróvisjónkeppninni í gærkvöld. Norskir fjölmiðlar greina frá óralöngum skrúðgöngum um götur bæja og borga í landinu.
Fjöldinn allur af lúðrasveitum tekur ár hvert þátt í þjóðhátíðargöngum Norðmanna og greinir VG frá því að skólahljómsveitin í Nesodden, bænum sem Alexander Rybak kemur frá, hafi æft inn lag hans Fairytale. Sveitin hyggst taka á móti honum með laginu þegar hann lendir á flugvellinum í Osló í kvöld. Gleðin í bænum er enda mikil yfir sigri hans og hefur sérstök móttökuhátíð verið skipulögð honum til heiðurs í bænum á morgun.
Forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg er staddur í Torrevija á Spáni þar sem hann hélt ræðu fyrir um 2000 manns sem mættu til að þjóðhátíðarhalda. Í ræðu sinni sagði hann Norðmenn hafa fulla ástæðu til að vera stolta af þjóðerni sínu. „Stoltið má þó ekki breytast í sjálfsánægju," sagði hann samkvæmt frétt Aftenposten, en ekki fylgdi sögu hvort hann vísaði þar til ánægjunnar yfir sigrinum í gær.
Sjálfur hélt Rybak þjóðhátíðardaginn hátíðlegan í norska sendiráðinu í Moskvu í dag. Þar gættu hans þrír vöðvastæltir öryggisverðir enda varð algert öngþveiti þegar hann birtist í sendiráðinu, þar sem mörg hundruð Norðmenn, voru mættir til hátíðarhaldanna. Þegar sendiherrann stakk upp á að viðstaddir myndu syngja norska þjóðsönginn svaraði Rybak að bragði: „Já, þann gamla!"
Rybak er væntanlegur á Gardermoen flugvöll í Osló í kvöld og eru miklar öryggisráðstafanir viðhafðar vegna þess, enda búist við múg og margmenni til að taka á móti honum, eftir að söngvarinn hvatti til þess í beinni útsendingu frá keppninni þegar úrslitin voru ljós í gærkvöld.
Þegar hafa heitar umræður sprottið í Noregi um hvar sé rétt að halda söngvakeppnina að ári, og sýnist sitt hverjum. Hafa borgir eins og Osló, Björgvin, Stafangur og Tromsö verið nefndar í því sambandi. Menningarmálaráðherra landsins, Trond Giske, segir að valið á staðnum þurfi að liggja fyrir á næstu vikum.