Tvöföld þjóðhátíð Norðmanna

Norski hópurinn fagnar sigri í Moskvu í gær.
Norski hópurinn fagnar sigri í Moskvu í gær. Reuters

Norðmenn eru að vonum ánægðir með sigur síns manns í Evróvisjón söngvakeppninni í Moskvu í gærkvöldi og munu væntanlega halda af enn meiri gleði upp á þjóðhátíðardag sinn, sem er í dag, 17. maí. „Þetta var frábær sigur fyrir Noreg," sagði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, í norska sjónvarpinu. „Hann hefur unnið ótrúlegt afrek."

„Alexander þriðji" var fyrirsögnin á fréttavef Aftenposten í nótt og var þar vísað til þess að þetta er þriðji sigur Noregs í Evróvisjón. Hvatti blaðið Norðmenn til að koma með norska fána til Gardemoen flugvallar í kvöld þegar Rybak kemur heim frá Moskvu. 

Norðmenn hlóðu lofi á Rybak á bloggsíðum: „Það er ótrúlegt, að þú skyldir hafa sigrað við hlið allra þessara „karla" sem voru löðrandi í svita og hálfnaktir. Þú ert ekta," skrifaði Hege, 42 ára.

Rybak sigraði með einföldu lagi með austur-evrópsku yfirbragði, danski og fiðluleik. Rybak, sem er 23 ára, fæddist í Hvíta-Rússlandi en er uppalinn á Nesodden, skammt frá Ósló. Hann hefur stundað nám í fiðlu- og píanóleik frá unga aldri. Lagið hans, Fairytale, sem hann samdi sjálfur, fékk 387 stig eða 9,4 stig að jafnaði frá hverri þjóð og 16 þjóðir gáfu laginu 12 stig.   

Rybak var hógvær á blaðamannafundi eftir keppnina í gærkvöldi. „Ég held ekki að ég hafi verið besti söngvarinn í keppninni. En ég sagði sögu og fólki fannst gaman að sögunni minni." 

Úrslit söngvakeppninnar voru mikil skrautsýning og Rússar sýndu þar sitt besta andlit: heimsfegurðardrottninguna Ksenju Sukhinóvu, sem birtist milli laganna. Í Ólympíuhöllinni var mikil ljósasýning og meðan á símaatkvæðagreiðslu stóð sýndu dansarar listir sínar í gegnsærri sundlaug sem sveif í loftinu. Þá var hringt til alþjóðlegu geimstöðvarinnar og geimfarar þar settu atkvæðagreiðsluna formlega af stað.

Það varpaði þó nokkrum skugga á allt þetta, að lögreglan í Moskvu stöðvaði svokallaða slavneska gleðigöngu í gær og handtóku um 40 manns sem vildu draga athygli að fordómum, sem ríkja í garð samkynhneigðra í Rússlandi.

Þegar Rybak var á blaðamannafundinum spurður um þetta var hann fljótur að svara: „Mér finnst það dálítið sorglegt, að þeir skyldu ákveða að standa fyrir þessari göngu í dag því stærsta gleðiganga samkynhneigðra í heimi var haldin í kvöld."  

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar