Fróðleikur um Evróvisjón

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir jafnaði metið þegar hún varð í 2. …
Jóhanna Guðrún Jónsdóttir jafnaði metið þegar hún varð í 2. sæti í Moskvu. AP

Íslendingar lenda að meðaltal í 12,5 sæti í Evróvisjón söngvakeppninni ef aðeins er horft til aðalkeppninnar. Þrisvar komust Íslendingar ekki upp úr undankeppninni og árið 2002 voru þeir fjarri góðu gamni. Á þessum tímapunkti er vert að rifja upp eftirminnileg ummæli frá nokkrum keppendum.

Að sjálfsögðu er staldrað við úrslitin hverju sinni.

ICY reið á vaðið með Gleðibankanum árið 1986 (16. sæti) og svo kom Halla Margrét með Hægt og hljótt (16. sæti) og félagarnir Stefán Hilmarsson og Sverrir Stormsker með lagið Sókrates árið 1988 (16. sæti).

Eins og að vera á Eskifirði

Sverrir var berorður þegar úrslitin lágu fyrir.

„Það hafði engin áhrif á mig að vita af þessum milljónum glápandi á keppnina, þetta var svipuð tilfinning og að halda tónleika á Eskifirði fyrir 20 manns. Ástæðan fyrir slæmu gengi okkar er einfaldlega sú að við erum ekki komnir á landakortið, úti veit enginn neitt um okkur og það er ekki gert ráð fyrir að neitt komi frá okkur. Ég held að lagið hafi engu máli skipt, við hefðum lent í 16. sæti þó við hefðum flutt svissneska lagið... Ég hefði miklu frekar viljað lenda í 21. sæti en 16. af öllum sætum. Mér þykir hart að vera kominn í hóp með Valgeiri Guðjónssyni og Magnúsi Eiríkssyni."

Það leit svo út fyrir að endanleg staðfesting væri fengin á því að Ísland og Evróvisjón færu ekki saman þegar Daníel Ágúst lenti í 22. sæti með lagið Það sem enginn sér árið 1989.

Dimmast fyrir dögunina

En jafnan er dimmast fyrir dögunina og tók landinn heldur betur gleði sína árið eftir þegar Stjórnin (Sigga og Grétar) slógu í gegn með lagið Eitt lag enn og enduðu í fjórða sæti í keppninni árið 1990.

„Við ætluðum okkur alltaf að reyna að komast inn á topp tíu, en við þorðum ekki að vona að við næðum eins ofarlega og raun bar vitni,“ sagði Sigga að keppninni lokinni.

Væntingarnar voru því meiri en oft áður þegar Stefán og Eyfi fluttu lagið Nínu árið 1991 en þá vaknaði gamall draugur því lagið endaði í 15. sæti.

Sigga Beinteins og Sigrún Eva skiluðu laginu Nei eða já í 7. sæti árið 1992 en aftur seig á ógæfuhliðina árið eftir þegar Ingibjörg Stefánsdóttir lenti í 13 sæti með lagið Þá veistu svarið.

Ísland fékk mesta athygli

Ingibjörg bar sig vel þegar úrslitin lágu fyrir:

„Annars bjóst ég við að fara ofar vegna þess að ég fékk svo góða athygli sem er þó auðvitað gott útaf fyrir sig. Ég talaði við marga blaðamenn og Íslendingar héldu eiginlega stærsta blaðamannafundinn,“ sagði Ingibjörg.

Sigríður Beinteinsdóttir skilaði Íslandi einu sæti ofar með lagið Nætur árið eftir en landið féll aftur í töflunni þegar lagið Núna með Björgvini Halldórssyni endaði í 15. sæti árið 1995.

Anna Mjöll varð svo í 13. sæti með lagið Sjúbídú árið 1996 en Páll Óskar aðeins í 20 sæti með lagið Minn hinsti dans árið 1997.

Móðgaður lesandi

Lesandi Morgunblaðsins var sármóðgaður:

„Mig langar til að benda landsmönnum á gildi einstakrar landkynningar og auglýsinga sem Páll Óskar og vildarvinir hans hjá Ríkisútvarpi- Sjónvarpi unnu fyrir íslenska menningu með þátttöku sinni í Sönglagakeppni Evrópuþjóða. Þar ýttu þeir vel við stóru pornokóngunum, einkum þeim sem nú eru að flýja frá Belgíu. Þeir sjá að þjóðin ber af í frjálslyndi sínu. Þjóð sem tókst að hneyksla alla Evrópu með vali fulltrúa síns í hinsta dansi siðgæðis hlýtur að vera frjálslynd að endemum.“

Líkt og Daníel Ágúst var Páll Óskar forboði óvæntra úrslita en allt ætlaði um koll að keyra þegar Selma náði 2. sætinu með lagið All out Luck árið 1999.

Íslendingar fóru síðan aftur niður á jörðina þegar Telma og Einar Ágúst lentu í 12. sæti með Tell Me aldamótaárið 2000 og ekki fór það batnandi þegar Two Tricky lentu í 23. sæti með Angel árið eftir.

Kosningar ein skýringin

Íslendingar tóku ekki þátt í keppninni árið eftir og túlkaði Morgunblaðið dræmt áhorf svo:

„Sú staðreynd að Íslendingar voru ekki með að þessu sinni og að keppnina bar upp á kosningakvöld hefur þó trúlega haft eitthvað að segja um áhorf á keppnina hér á landi.“

Árangurinn var mun betri 2003 þegar Birgitta Haukdal endaði í 9. sæti með lagið Open your Heart en Ísland féll aftur í töflunni árið 2004 þegar Jónsi skilaði Heaven í 19. sæti.

Selma sneri svo aftur með lagið If I had your Love sem endaði í 16. sæti í undankeppni árið 2005. Hafði Thomas Lundin, fulltrúi Finna, þá verið sannfærður um að söngvakeppnin yrði haldin í Reykjavík árið eftir.

Drulluspæld

„Við erum auðvitað drulluspæld yfir úrslitunum. Hins vegar vorum við mjög sátt við okkar frammistöðu. Við gerðum okkar besta og lögðum allt í þetta. Hvað getur maður meira gert?“ sagði Selma þegar ljóst varð að Ísland tæki ekki þátt í aðalkeppninni í Kænugarði.

Silvía Nótt náði ögn betri árangri í Aþenu með laginu Congratulations árið 2006 en það endaði í 13. sæti í undankeppninni.

Forsvarsmenn Brimborgar voru bjartsýnir fyrir hennar hönd og buðu 75.000 kr. endurgreiðslu af sérstökum Evróvisjón-bílum ef hún ynni ekki keppnina.

Samsæriskenningin dregin fram

Selma leyndi ekki vonbrigðum með útkoma í Aþenu og benti í austur.

„Það er ljóst að Austur-Evrópa er í tísku núna. Mörg lög þaðan komast í gegn án þess að eiga það skilið," segir hún.

Eiríkur Hauksson náði sama árangri með Valentine Lost árið 2007 en síðan tók Eyjólfur að hressast þegar Eurobandið endaði í 14. sæti með laginu This is My Life árið 2008.

Eiríkur í uppáhaldi

Finnar voru einkar hrifnir af Eiríki og völdu liðsmenn YLE Extra, sem er ein sjónvarpsstöðva finnska ríkissjónvarpsins, Eirík sem uppáhaldskeppandann sinn.

„Mikil sorg greip um sig meðal stuðningsmanna íslenska lagsins, Valentine Lost, er úrslitin voru ljós,“skrifaði Halldóra Þórsdóttir blaðamaður frá Helsinki´. 

Óþarft er að rifja upp árangur Íslendinga árið 2009.

Páll Óskar móðgaði nokkra Íslendinga með laginu Minn hinsti dans.
Páll Óskar móðgaði nokkra Íslendinga með laginu Minn hinsti dans. mbl.is/Kristinn
Selma Björnsdóttir á æfingu með dönsurunum Brynjari og Daníel á …
Selma Björnsdóttir á æfingu með dönsurunum Brynjari og Daníel á sínum tíma. mbl.is/Ásdís
Birgitta Haukdal flutti lagið
Birgitta Haukdal flutti lagið "Open Your Heart". mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar