Hver segir að heiðarleiki borgi sig ekki? Argentínumenn hlaða nú gjöfum á leigubílsstjóra sem skilaði hárri peningaupphæð sem að farþegi gleymdi í bíl hans.
Þó að mikið sé um spillingu í landinu virðast landsmenn vel kunna að meta viðbrögð leigubílsstjórans. Þannig hafa um 55.000 manns skráð sig á vefsíðuna Devolvelelaguitaaltaxista.com sem þýða má sem skilum fénu til leigubílsstjórans. Nú um helgina náðu stofnendur síðunnar líka því takmarki að bílstjórinn Santiago Gori fengi gefna þá fjárhæð sem hann skilaði, 130.000 pesóa eða um 4,5 milljónir króna.
„Við vissum að þetta var góð hugmynd því hún gaf fólki tækifæri á að tjá hug sinn,“ sagði auglýsingastjórinn Nicolas Diaco sem kom síðunni á legg ásamt kollega sínum Ezequiel De Luca.
„Okkur datt hins vegar aldrei í hug að viðbrögðin yrðu svona góð!“
Mikil spilling ríkir í Argentínu og þykir vefsíðan Gori tjá vel óánægju almennings með þá staðreynd.
„Á meðan að það er til fólk eins og þú þá verður í lagi með þetta land,“ skrifaði par sem að bauð Gori tölvuskjá.
„Hversu dásamlegt væri ekki land okkar ef að stjórnmálamennirnir byggju yfir einum tíunda af heiðarleika þínum,“ skrifaði annar og bauð leigubílsstjóranum í hádegismat.
Þær gjafir sem að Gori hafa borist eru ný dekk fyrir leigubílinn, jakkaföt og vínflaska. Erlendis frá hefur hann svo fengið boð um að dvelja nokkra daga í Sao Paulo, Miami eða New York.
Þrátt fyrir alla athyglina hefur Gori haldið sinni daglegu rútínu og vinnur til níu á kvöldinn í borginni La Plata, suðaustur af Buenos Aires.
„Þeir komu mér virkilega á óvart,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Gori, um herferð auglýsingastjóranna. „Þeir gerðu þetta á eigin spýtur, ég þekkti þá ekki einu sinni!“
Hann man hins vegar vel apríldaginn er allt breyttist. Hann var nýbúinn að láta út farþega er hann tók eftir poka aftur í bílnum. Þegar hann opnaði hann blasti við seðlabúnt.
Þó að Gori viðurkenni að bílalánið sem hann er með hafi komið upp í hugann, hikaði hann ekki lengi áður en hann kom peningunum í réttar hendur með aðstoð lögreglu.
„Þú ert dýrlingur,“ sagði eigandi fjárins og færði Gori tveimur dögum síðar um 400.000 kr. í fundarlaun. Þá voru þeir De Luca og Diaco hins vegar þegar búnir að stofna vefsíðu sína. Þeir hafa nú afhent leigubílstjóranum gjafirnar og hefur hann heitið því að hafa samband við alla þá sem sendu honum gjöf.