Breski sjónvarpsmaðurinn Graham Norton var kynnir Evróvisjón á BBC í Bretlandi í fyrsta sinn í ár, og leysti það verk vel af hendi, með tilheyrandi kaldhæðni og tvíræðnum athugasemdum.
Norton sagðist í útsendingunni mjög hrifinn af íslenska laginu og sagði gæðin geta skilað laginu langt, ekki síst með tilkomu hins nýja fyrirkomulags þar sem dómnefndir í hverju landi hafa aukið vægi í stigagjöf.
Annað vakti athygli Nortons og það var hversu sláandi lík honum þótti Jóhanna Guðrún vera bandarísku leikkonunni Scarlett Johansson og kom hann þeirri skoðun sinni á framfæri eins oft og hann gat.
Norton var þó ekki eins hrifinn af klæðnaði Jóhönnu, sem honum fannst minna helst til mikið á tættan brúðarmeyjarkjól.