Leikarinn Brad Pitt kveðst hafa verið í kippnum, eða vel rúmlega það, þegar hann féllst á að leika í nýjustu kvikmynd bandaríska leikstjórans Quentin Tarantino, Inglourious Basterds, sem var frumsýnd á Cannes-hátíðinni í vikunni. Myndin hefur fengið afar misjafna dóma, þótt hún sé í aðalkeppni hátíðarinnar, en Pitt segist hafa fallist á að leika í henni eftir hressilegan næturgleðskap með leikstjóranum.
„Við fórum út á lífið,“ sagði Pitt hlæjandi við blaðamenn í Cannes. Daginn eftir vaknaði ég, sá fimm, sex flöskur á gólfinu og einhverskonar reykvél. Síðan var ég einhvern veginn byrjaður að vinna við myndina sex vikum seinna.“
Í myndinni leikur Pitt herforingja sem leiðir hóp bandarískra hermanna sem allir eru gyðingar, í síðari heimsstyrjöldinni. Mike Myers og Diane Kruger leika einnig í myndinni.