Guðrún Dögg Rúnarsdóttir, nýkjörin ungfrú Ísland, veit fátt skemmtilegra en að hanna fatnað. Hún er við nám á listnámsbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, FB, með fatahönnun sem kjörsvið.
„Ég var farin að hanna og sauma á mig áður en ég byrjaði í náminu. Það er rosalega skemmtilegt þegar maður hefur búið til eitthvað fallegt,“ segir Guðrún Dögg sem kveðst hafa lært margt af ömmu sinni, Elviru Christel Einvarðsson, en foreldrar Guðrúnar Daggar eru Brynja Kristbjörg Jósefsdóttir og Rúnar Þór Óskarsson.
„Amma er rosalega flink í höndunum. Hún hefur alltaf prjónað, heklað og saumað og hún hjálpaði mér við handavinnu þegar ég var yngri. Svo var hún líka að vinna í handavinnunni uppi á Höfða,“ greinir Guðrún Dögg frá.
Höfði er dvalarheimili fyrir aldraða á Akranesi og þar ætlar fegurðardrottningin að starfa í sumar eins og í fyrrasumar. Það verður reyndar ekki við handavinnu, heldur í eldhúsinu.
Að loknu náminu í FB stefnir Guðrún Dögg að því að fara í hönnunarskóla í Mílanó á Ítalíu. „Þar er hægt að læra fata- og skóhönnun, skartgripahönnun, matarhönnun og ýmislegt fleira. Mig langar til þess að fá BA-gráðu þaðan.“ Framundan er þátttaka í keppninni Miss World sem haldin verður í Suður-Afríku síðar á árinu og hlakkar Guðrún Dögg mikið til fararinnar.