Skoska söngkonan Susan Boyle komst áfram í úrslit í breska sjónvarpsþættinum Britain's Got Talent í kvöld. Þykir það fullvíst að það megi ekki síst þakka söng hennar á YouTube en hún hefur heldur betur slegið í gegn að undanförnu fyrir söng sinn. Boyle, sem býr á Skotlandi, er 47 ára gömul og að eigin sögn hefur hún aldrei verið við karlmann kennd.
Myndband með Boyle þar sem hún syngur lagið I Dreamed A Dream úr söngleiknum Les Miserables (sem byggir á bók Victor Hugo, Vesalingunum) hefur verið skoðað í yfir 60 milljón skipti á YouTube síðan það var sett á vefinn í síðasta mánuði. Má geta þess að bandaríska leikkonan Demi Moore er meðal aðdáenda Boyle.
Boyle er ein þeirra 40 sem munu taka þátt í úrslitakeppninni Britain's Got Talent. Þegar hún var spurð að því í kvöld hvernig henni liði með ákvörðun dómaranna um að velja hana í úrslitin, svaraði hún að bragði: „Það besta í heimi, þetta er stórkostlegt," um leið og hún steig dansspor.