Eftir Helga Snæ Sigurðsson
„Jú, jú, ég er mjög kátur,“ svaraði Kristján Guðmundsson myndlistarmaður í dag þegar blaðamaður innti hann eftir því hvort hann væri ekki himinlifandi yfir því að hljóta aðalverðlaun hinna virtu, norrænu Carnegie-myndlistarverðlauna fyrstur Íslendinga.
Kristján fær að launum eina milljón sænskra króna, úr hendi Margrétar Þórhildar Danadrottningar. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Kunsthal Charlottenborg í Kaupmannahöfn, þann 17. september n.k.
„Ætli ég verði ekki að setja þetta á IceSave svona til öryggis?“ sagði Kristján sposkur í dag, sallarólegur yfir öllu saman. Það var samhljóma álit dómnefndar að Kristján skyldi hljóta aðalverðlaunin en þau fékk hann fyrir einstæð, hljóðdempandi málverk sem einn dómnefndarmanna, Gunnar J. Árnason listheimspekingur, segir einstök og framúrskarandi.
Lesa má viðtal við Kristján í Morgunblaðinu á morgun.