Íslensku tónlistarmennirnir Ólafur Arnalds, Dísa og For a minor Reflection spiluðu á sérstakri opnunarhátíð útibús Stúdíós Sýrlands í Danmörku um síðustu helgi.
„Þetta er tuttugu mínútna akstur frá Árósum á miðju Jótlandi,“ segir Þórir Jóhannson annar eigandi Stúdíós Sýrlands. „Þetta er hús sem var byggt árið 1743 og var í mikilli niðurníðslu. Útlitið á þessu var með því hræðilegra sem ég hef séð á ævinni. Íslendingur sem býr þarna í næsta nágrenni er húsasmiður og hann hafði verið að fylgjast með þessu húsi og hafði samband í haust við okkur til að athuga hvort við værum til í að setja þarna upp hljóðver með honum. Þetta var í haust og manni fannst nú kannski ekkert það skynsamlegasta í heimi að fara í útrás á þeim tíma, eftir bankahrunið. Við settumst þó niður og fundum leið til þess að gera þetta án þess að skuldsetja okkur beint. Hann keypti húsið og gerði það upp en við áttum tæki sem við leggjum til. Við stofnuðum svo sameiginlegt félag, Sýrland DK, sem heldur utan um reksturinn á þessu. Félagið leigir svo húsið af honum og öll tækin af okkur.“
Þórir segir að húsið búi yfir einstökum hljómi er henti upptökum á lifandi rokktónlist og klassískri tónlist einstaklega vel. Í húsinu er einnig íbúð og gistiheimili er gestir geta fengið aðgang að gegn lágri greiðslu á meðan þeir vinna tónlist sína í danskri sveitasælu. Bíll er á svæðinu er gestir geta fengið afnot af.
„Við unnum mikið í þessu sjálfir og höfðum þetta eins flott og við gátum, innan skynsamlegra marka. Það voru engar einkaþotur sem flugu með okkur út. Þannig að við getum leyft okkur að bjóða gestum sérstakt kynningarverð núna þegar við erum að fara af stað. Í sumar ætlum við heldur ekki að rukka þær íslensku sveitir sem koma um 24 krónur fyrir dönsku krónuna, heldur nær gamla genginu, eða 16 krónur, til þess að gera mönnum kleift að prufa þetta. Þetta er t.d. tilvalið fyrir þá listamenn sem eru að fara að ferðast um Evrópu og eru með föruneyti með sér. Það eru akrar allt í kring og fuglasöngur. Þú ert algjörlega út af fyrir þig úti í sveit í gömlu húsi,“ segir Þórir að lokum. Það hlýtur því að teljast vel hugsanlegt að íslenskir tónlistarmenn flýi klakann og eyði hluta sumars í sveitasælunni í Sýrlandi.