Skoska söngkonan Susan Boyle tapaði fyrir danshópnum Diversity í úrslitum hæfileikakeppninnar Britain's got talent í kvöld. Boyle lenti í 2. sæti í keppninni. Talið er að 20 milljónir manna hafi fylgst með úrslitunum í beinni útsendingu ITV sjónvarpsstöðvarinnar en áhorfendur greiddu atkvæði um keppendurna.
Boyle sagði, þegar úrslitin lágu fyrir, að þeir bestu hefðu unnið og hún óskaði þeim alls hins besta. Úrslitin komu hins vegar verulega á óvart, ekki síst félögunum 10 frá Norður-Lundúnum, sem skipa danshópinn. Um er að ræða þrenna bræður á aldrinum 12 til 25 ára og félaga þeirra en þeir stofnuðu danshópinn árið 2007.
Boyle, sem er 48 ára og segist aldrei hafa verið kysst, söng í kvöld á ný lagið I Dreamed A Dream úr söngleiknum Vesalingunum en það var lagið sem gerði hana heimsfræga í undankeppninni fyrir mánuði. Talið er að 100 milljónir manna hafi horft á myndskeið af söng Boyle á vefnum YouTube.
Susan Boyle virtist sallaróleg þegar hún söng í úrslitunum í beinni sjónvarpsútsendingu en áætlað var að 20 milljónir Breta myndu horfa á þáttinn í kvöld. Áhorfendur í salnum fögnuðu gríðarlega þegar Boyle hafði lokið söng sínum.
Piers Morgan, einn dómaranna þriggja í þættinum, sagði að frammistaða Boyle væri sú besta sem hann hefði séð í Britain's Got Talent. „Þú ættir að vinna keppnina, ég var stórhrifinn."
Sigurvegararnir voru hins vegar götudanshópurinn Diversity. Hann fékk að launum 100 þúsund pund, jafnvirði 20 milljóna, og mun koma fram á konunglegu jólaskemmtuninni í vetur.