Skoska söngkonan Susan Boyle hefur verið flutt á einkasjúkrahús í Lundúnum vegna ofþreytu en hún lenti í öðru sæti í úrslitum hæfileikakeppninnar Britain's got talent á laugardagskvöld. Hún var flutt frá hóteli sínu í borginni i sjúkrabíl. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Fyrr í gær var greint frá því að hún myndi taka sér nokkurra daga frí að læknisráði vegna andlegrar og líkamlegrar þreytu. Lundúnalögreglan staðfesti í morgun, að kona hefði verið flutt með sjúkrabíl á hjúkrunarheimili í gær eftir að lögreglumenn höfðu lagt mat á ástand hennar í samræmi við breska löggjöf um geðheilbrigði.
Sky fréttastofan segir, að framleiðendur sjónvarpsþáttarins hafi kallað lögreglu til eftir að Boyle fór að haga sér einkennilega á hóteli sínu í gær.
Þá hermdu fréttir, að þótt Boyle hefði virst taka ósigrinum í þættinum vel hefði hún fengið reiðikast baksviðs síðar um kvöldið.
Talið er að 18 milljónir manna hafi fylgst með úrslitunum hæfileikakeppninnar í beinni útsendingu ITV sjónvarpsstöðvarinnar á laugardagskvöld en áhorfendur greiddu atkvæði um keppendurna. Öllum á óvörum sigraði götudanshópurinn Diversity en Boyle varð í 2. sæti.
Hún söng á ný lagið I Dreamed A Dream úr söngleiknum Vesalingunum en það var lagið sem gerði hana heimsfræga í undankeppninni fyrir mánuði. Talið er að 100 milljónir manna hafi horft á myndskeið af söng Boyle á vefnum YouTube.
Til stóð að Boyle hæfi æfingar á næstu dögum vegna fyrirhugaðrar útgáfu á lögum hennar. Þá stendur til að hún fari til Prag í júní til að taka upp lög með sinfóníuhljómsveit Tékklands.