Atvikið á verðlaunahátíð MTV á sunnudag þegar Sascha Baron Cohen lenti með rassinn í andliti Eminem gæti hafa verið sett á svið. Eminem rauk í framhaldinu í burtu.
Samkvæmt heimildum Hollywood Insider var Eminem fullkomlega meðvitaður um hvað var í bígerð og samþykkti að taka þátt í atriðinu sem leit út fyrir að vera hrekkur. Cohen var í gervi sínu sem hinn samkynhneigði Bruno og var með englavængi og í g-streng. Hann sveif í vír niður til áhorfenda og lenti með hálfberan rassinn í andliti rapparans sem virtist verða æfareiður. Cohen sagði síðan: „Eminem, gaman að hitta þig.“ Eminem heyrðist blóta og segja: „Ertu ekki að grínast í mér?“ Hann æddi síðan í burtu með lífvörðum sínum.
Grínhöfundurinn Scott Aukerman sem segist hafa samið mikið af efni hátíðarinnar fullyrðir nú að atriðið hafi verið sett á svið og að rapparinn og leikarinn hafi æft það fyrir fram.
„Já, Bruno/Eminem atvikið var sett á svið,“ skrifar hann. „Þar sem allir eru að tala um þetta, þá skulum við bara koma því frá. Þeir æfðu þetta á undan á nákvæmlega sama hátt.“
Dagblaðið The Sun staðhæfir að Paris Hilton hafi upphaflega átt að vera fórnarlamb Brunos en að hún hafi neitað að taka þátt í þessu. Á það að hafa verið framleiðandinn Mark Burnett sem kom að máli við hana og er hún víst afar ánægð með að hafa hafnað boðinu.