Mel Gibson er tæpur á tauginni um þessar mundir enda nýskilinn við eiginkonu sína og genginn í faðm kornungrar rússneskrar söngkonu. Sem væri svosem ekki í frásögur færandi ef slíkar æfingar stönguðust ekki svo herfilega á við strangtrúað líferni Gibsons en hann er kaþólikki og rekur meira að segja eigin kirkju í Kaliforníu sem kallast The Holy Family Chapel.
Það var einmitt þar, nýliðinn sunnudag, sem Gibson missti það algerlega; hann fór upp að altarinu og úthúðaði söfnuðinum fyrir að bera sín einkamál á torg. Gibson gekk um kirkjuna sem óður væri og lét eldi og brennisteini rigna yfir kirkjugesti, þar á meðal tvo presta og vísiterandi biskup. Hótaði hann m.a. að loka kirkjunni fyrir fullt og allt.
Heitmey Gibsons, Oksana Grigorieva, er nú ólétt að þeirra fyrsta barni en fyrir á hann sjö börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Robyn. Þau höfðu verið gift í 28 ár og Gibson oft dreginn fram sem dæmi um að hjónaband í Hollywood gæti gengið upp. Annað hefur nú heldur betur komið í ljós.