Spánverjinn Osel Hita Torres, sem Dalai Lama staðfesti árið 1986 að væri Lama Yeshe endurholdgaður, hefur nú greint frá því að hann hafi snúið baki við Búddisma.
Foreldrar drengsins fóru með hann til Indlands þar sem þau hittu Dalai Lama árið 1986. Leiddi yfirlýsing Dalai Lama til þess að drengurinn var skilinn frá foreldrum sínum og alinn upp í Sari klaustrinu á Indlandi til átján ára aldurs.
Torres var dýrkaður sem mikil meistari og fékk einungis að umgangast fólk sem talið var að væru aðrir merkir menn endurholdgaðir.
Í blaðaviðtali sem birt var í blaðinu El Mundo um síðustu helgi segist hann telja að klaustursvistin hafi hamlað persónulegum þroska sínum.
„Þetta hafði allt mikil sálræn áhrif á mig. Ég finn enn fyrir reiði og stundum þegar hún brýst út þá missi ég stjórn á mér og verð þunglyndur,” segir hann. „Ég var tekinn frá fjölskyldu minni og settur í aðstæður frá miðöldum þar sem ég þjáðist mjög mikið. Þetta var eins og að lifa lífi sínu í lygi.”
Torres yfirgaf klaustrið fyrst eftir að honum tókst að koma boðum til móður sinnar þegar hann var átta ára gamall. Hann snéri hins vegar fljótlega aftur þar sem hann taldi það skyldu sína sem Lama Yeshe.
Hann yfirgaf klaustrið aftur þegar hann var átján ára og dvaldi þá fyrst í Kanada og síðan í Sviss. Hann leggur nú stund á nám í kvikmyndagerð á Spáni.
Í viðtalinu segir hann það hafa komið sér hvað mest á óvart að klaustursdvölinni lokinni að sjá fólk kyssast á almannafæri. Þá segir hann frá fyrstu heimsókn sinni á næturklúbb.
„Ég var furðu lostinn að sjá alla dansa. Hvað var allt þetta fólk að gera, hoppandi, klesst saman í súrefnisleysi í litlum kassa fullum af reyk? Var þetta tónlist? Þetta virtist vera hávaði. Það skar í eyrun. Þetta var það skrítnasta i heimi."
Hann segist þó ekki ætla að gera kvikmynd um æsku sína. Til þess sé hún of flókin. „Það hefur verið stungið upp á því að skrifuð verði ævisaga mín en það verður að bíða fram yfir andlát mitt þar sem það verða of margir hneykslaðir,” segir hann.
Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, hefur búið í útlegð á Indlandi frá árinu 1959. Hann hélt fyrirlestur hér á landi í gær.